Um mig

Dagný Erla Vilbergsdóttir

Ég er fæðingarmarkþjálfi, fæðingar- og sængurlegudoula, hómópati, leiðbeinandi í meðgöngujóga og fæðingarundirbúningi sem og ungbarnanuddi en áður hef ég lokið námi í og unnið sem kennari og náms- og starfsráðgjafi. Ég er gift fimm barna móðir og á að auki tvö eldri stjúpbörn og stjúpbarnabarn auk þess að vera stuðningsforeldri 2 ára skvísu. Ég hef alla tíð verið mikil áhugamanneskja um fæðingar, ungabörn og börn almennt. Ég elska að lesa mér til um og fræðast um mitt helsta áhugamál, fæðingar, sem og að vera úti í fallegri náttúru og njóta samvista með fjölskyldu minni og vinum. Í gegnum fæðingarnar mínar og þekkingarleit í sambandi við fæðingarferlið varð ég meira og meira meðvituð um hversu mikill máttur fæðingarinnar er og hvernig hægt er með góðum undirbúningi og fræðslu, bæði að auka líkur á góðri fæðingarupplifun og efla móðurina því fæðing snýst um meira en það mikla kraftaverk að koma barni í heiminn. Mæður fæðast um leið sem getur verið engu síðri áskorun en sjálf fæðingin og hversu mikilvægt er að þær megi fæðast fullar af trú á eigin getu og styrk. Í því sambandi er mikilvægt að konur upplifi að fæðingin sé þeirra, að á þær sé hlustað, þær séu öruggar, þeirra þörfum og óskum mætt og þær geti verið við stjórnvölinn. En til þess að svo megi vera er góður undirbúningur gríðarlega mikilvægur og það að takast á við eigin áskoranir, öðlast meiri þekkingu um fæðingarferlið og þau bjargráð sem hægt er að nýta sér skilar sér í verkjaminni og betri fæðingarupplifun. Mín hugsjón og það sem ég vil vinna að er að styðja og styrkja verðandi mæður og foreldra í að eignast sem besta fæðingarupplifun og hlúa að móður og barni og fjölskyldunni allri.

Dagný_Erla.jpeg